Árni Heimir Ingólfsson
Tónlistarfræðingur og píanóleikari

Árni Heimir Ingólfsson er íslenskur tónlistarfræðingur og píanóleikari. Hann hefur gefið út fjölda bóka og greina um íslenska tónlistarsögu allt frá miðöldum til samtímans. Bók hans, Jón Leifs – Líf í tónum var tilnefnd til Íslensku bókmennaverðlaunanna og ensk gerð hennar, Jón Leifs and the Musical Invention of Iceland, var valin ein af bestu tónlistarbókum ársins af Alex Ross, gagnrýnanda The New Yorker.
Nýjasta bók Árna Heimis, Tónar útlaganna (2024) segir sögu þriggja tónlistarmanna sem flúðu nasismann til Íslands og lögðu grunninn að íslensku tónlistarlífi um miðja 20. öld. Bókin hefur hlotið frábærar viðtökur jafnt á Íslandi sem erlendis, undir heitinu Music at World’s End, og fyrir hana var Árni Heimir tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í þriðja sinn.
Árni Heimir vinnur nú að rannsókn á fyrstu kynslóð íslenskra módernista í tónlist, á vegum ReykjavíkurAkademíunnar og með stuðningi Rannsóknasjóðs. Þá hefur hann undanfarið haldið fyrirlestra í Chicago (American Musicological Society), Lundúnum (Royal Musical Association), við Háskólann í Leeds og Listaháskólann í Tókýó. Í janúar 2025 var hann sérstakur gestur í þættinum The Early Music Show á BBC Radio 3, sem var helgaður rannsóknum hans og flutningi á íslenskri tónlist fyrri alda.